Kornvörur
Kornvörur eru mikilvægur hluti af hollu mataræði, sérstaklega þegar valin eru heilkorn og trefjaríkar vörur.

Trefjar úr kornvörum styðja við heilsuna á fjölmarga vegu og geta dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki 2 og sumum tegundum krabbameina. Það skiptir því máli að velja kornvörur með sem mestum trefjum frekar en unnar eða trefjasnauðar vörur.
Heilkorn eru kornvörur sem hafa alla hluta kornsins í heilu lagi sem veitir okkur vítamín, steinefni, andoxunarefni ásamt trefjum og próteini. Þegar korn er mikið unnið eins og t.d. hvítt hveiti eða hvít hrísgrjón er búið að fjarlægja hýðið og kímið þannig hverfur stór hluti trefja, vítamína og steinefna. Þess vegna eru heilkorn eins og heilhveiti, brún hrísgrjón, hafrar og rúgur miklu næringarríkari valkostir.
Trefjainnihald í kornvörum
Kornvara
Trefjar (g/100 g)
Hvít hrísgrjón
0,6 g
Kínóa
2,8 g
Brún hrísgrjón
3,5 g
Búlgur
4,5 g
Bygg
5,5 g
Haframjöl
7,0 g
Heilhveiti
10,7 g
Rúgur
13,0 g
Hveitikím
13,2 g
Gróft bygg
17,3 g
Hveitiklíð
42,8 g
Tölurnar eru dæmigerðar og geta breyst lítillega eftir tegund og framleiðanda
Kornvörur í búðum, hvað á að velja?
Við höfum í dag gott úrval af brauðum og kornvörum með háu trefjamagni. Þegar þú velur brauð eða annað kornmeti:
- Skoðaðu innihaldslýsinguna og veldu brauð sem inniheldur að minnsta kosti 6 g/100 g af trefjum
- Heilhveiti, heilkorn, rúgur og hafrar ættu að vera ofarlega á innihaldslýsingunni
- Forðastu vörur þar sem unnið hveiti eða sykur eru helstu innihaldsefnin
Meira um heilsu
Meira um heilsu